Spurt og svarað
Hver er Þórarinn?
Þórarinn er fæddur árið 1983 í Reykjavík. Hann hóf störf sem þýðandi hjá þýðingastofunni Skjali árið 2007, þar sem hann naut leiðsagnar reyndari þýðenda er hann steig sín fyrstu spor í greininni. Þar starfaði hann með hléum til ársins 2011, þegar hann hóf störf sem sjálfstæður verktaki. Árið 2013 stofnaði hann þýðingastofuna tNordica Language Service í Gautaborg ásamt Hirti Einarssyni. Fyrirtækið veitti þýðingaþjónustu fyrir Norðurlandamálin og í byrjun árs 2017 keypti þýðingarstofan Skopos ehf. rekstur þess. Þórarinn gekk þá til liðs við Skopos, þar sem hann starfaði sem þýðandi og verkefnastjóri til ársins 2020, en þá hóf hann að nýju störf sem sjálfstætt starfandi þýðandi undir heitinu Núans.
Ítarlegri ferilskrá er að finna á LinkedIn.
Hvaða reynslu hefur Þórarinn?
Eftir 13 ár í starfi hefur Þórarinn þýtt meira en 5 milljón orð og hefur því víðtæka reynslu af ýmsum sviðum. Hann sérhæfir sig í þýðingum á hugbúnaðar- og vefþjónustu, markaðsefni, lyfseðlum og hvers kyns tæknilegum textum.
Auk þýðinga hefur Þórarinn mikla reynslu af gæðastjórnun á sviði þýðinga, meðal annars gerð leiðbeininga og orðalista, yfirferð þýðinga, sem og samræmingu og samskipti við hóp þýðenda og verkkaupa. Þórarinn hafði þannig yfirumsjón með íslenskum Google-þýðingum á árunum 2011-2016 og gegndi sama hlutverki fyrir Microsoft um árabil.
Hvaða tungumál vinnur hann með?
Þórarinn þýðir af ensku og sænsku yfir á íslensku.
Hvaða þjónusta er í boði?
Auk þýðinga tekur Þórarinn að sér yfirlestur, textaskrif og ráðgjöf varðandi þýðingar, hvort sem er fyrir einstaklinga eða fyrirtæki, stór og smá. Þórarinn getur einnig tekið að sér að hafa umsjón með stærri þýðingarverkefnum, svo sem þýðingar yfir á mörg tungumál.
Hvað kostar að þýða texta?
Verð þýðingar ræðst af lengd textans og eðli hans. Afsláttur er gefinn af texta sem inniheldur mikið af endurtekningum.
Hafðu samband til að fá tilboð í þýðingu eða aðra vinnu.